top of page
GDz-VVTXYAAiuhl.jpg

GROWL POWER
tónleikar

Björg Brjánsdóttir flautuleikari
flytur verk Báru Gísladóttur

​GROWL POWER er heiti á einu tónverka Báru Gísladóttur og jafnframt titillinn á fyrstu sólóplötu Bjargar Brjánsdóttur flautuleikara þar sem hún leikur verkið ásamt þremur öðrum verka Báru. Öll verkin eru samin sérstaklega fyrir Björgu.

 

GROWL POWER er einnig heiti á tónleikaprógrammi þar sem Björg flytur öll verkin af plötunni á tónleikum. Verkin eru flutt í heild, án hlés.

 Verkefnið hófst með tónleikum á Myrkum músíkdögum 2024 þar sem Björg flutti efnisskrána í Norðurljósum í Hörpu á opnunarkvöldi hátíðarinnar. Tónleikarnir hlutu einróma lof og á efnisskráin fullt erindi á dagskrá tónlistarhátíða, tónleikaraða eða sem sjálfstæðir tónleikar metnaðarfullra tónlistarstaða. Helst er horft til tækifæra á meginlandi Evrópu, á Norðurlöndum og á Bretlandi en einnig til Kanada, Bandaríkjanna, Ástralíu og Nýja-Sjálands. 

Tónleikarnir eru tiltölulega einfaldir í uppsetningu og tækniþarfir er hægt að aðlaga aðstæðum, upp að vissu marki. Efnisskráin hentar þess vegna afar vel til flutnings við fjölbreytt tækifæri.

 

Samtímis tónleikunum á Myrkum músíkdögum voru verkin gefin út á streymisveitum en þau höfðu áður verið hljóðrituð undir upptökustjórn Bergs Þórðarsonar. Í kjölfar tónleikanna hófst framleiðsla á vínylplötu sem kemur út haustið 2025. Vínylplatan verður gefin út í 200 eintökum, ásamt 100 geisladiskum. Platan verður svo endurútgefin um leið á öllum helstu streymisveitum. 

Frá frumflutningi GROWL POWER á Myrkum músíkdögum 2024

 

Flytjandinn

Björg Brjánsdóttir flautuleikari vinnur með ýmsum hópum þvert á tónlistarstefnur ásamt því að semja eigin tónlist og hefur hún einbeitt sér síðastliðin ár að samstarfi við ýmis tónskáld og flutningi á nýjum einleiksverkum fyrir þverflautu.

 

Björg var tilnefnd sem flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022 og hefur meðal annars komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Elju kammersveit, Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Íslenska flautukórnum. Hún er flautuleikari tónlistarhópsins Caput og hefur sinnt fjölmörgum hljómsveitarverkefnum, að mestu í Þýskalandi, í Noregi og á Íslandi. Björg tilheyrir flautuseptettinum viibru sem hefur unnið með Björk Guðmundsdóttur frá árinu 2016 og ferðast með henni um heiminn til að flytja tónsýningu hennar, Cornucopiu.

 

Björg útskrifaðist af einleikarabraut frá Tónlistarháskóla Noregs vorið 2017 og hefur auk þess stundað nám í þverflautuleik við Tónlistarháskólann í Hannover, Tónlistarháskólann í München og Konunglega danska tónlistarháskólann.

GROWL POWER er fyrsta plata Bjargar. Önnur plata er væntanleg með verkum eftir sex ólík tónskáld.

 

Björg-24.jpg
GDz-VVTXYAAiuhl.jpg

​​

Efnisskrá

 

Verk eftir Báru Gísladóttur

 

GROWL POWER (2022) 

fyrir bassaflautu og rafhljóð

Ever Out After Dark (or blue lady in boring city) (2022) 

fyrir altflautu og rafhljóð

 

GLÓÐ|STELPA (2022) 

fyrir flautu

 

Stars with Shadows (on vast void and whatnot) (2022) 

fyrir piccoloflautu

Tónskáldið

 

​Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari búsett í Kaupmannahöfn. Hún lauk bakkalárprófi í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Þuríðar Jónsdóttur. Í kjölfarið for hún í framhaldsnám til Mílanó við Verdi Akademíuna hjá Gabriele Manca. Þaðan hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún lauk meistaraprófi og sólistaprófi (E. Advanced Postgraduate Diploma) frá Konunglegu dönsku tónlistarakademíunni undir handleiðslu Jeppe Just Christensen og Niels Rosing-Schow.

Tónlist Báru hefur verið flutt af sveitum og sólistum á borð við Adapter, Athelas, Copenhagen Phil, Collectif Love Music, Distractfold, Duo Harpverk, Elektru, Elju, InterContemporain, Jack Adler-McKean, Marco Fusi, Mimitabu, New Babylon, Nordic Affect, recherche, Riot Ensemble, Sinfóníuhljómsveit Helsingborgar, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Solistenensemble Kaleidoskop, Staatsorchester Hannover, Strokkvartettinn Sigga, TAK, Útvarpshljómsveit Danmerkur, Útvarpshljómsveitinni í Frankfurt, Útvarpshljómsveit Póllands, Útvarpskór Danmerkur og WDR Sinfonieorchester. Verk hennar hafa verið valin á hátíðir á borð við Alþjóða tónskáldaþingið, Ars Electronica, MaerzMusik, Myrka músíkdaga, Darmstädter Ferienkurse, Festival Musica, Huddersfield Contemporary Music Festival, KLANG Festival, Norræna músíkdaga, SPOR Festival, TRANSIT Festival, Warsaw Autumn og Wittener Tage für neue Kammermusik.

Árið 2024 hlaut Bára Ernst von Siemens Tónskáldaverðlaunin. Þá hefur hún hlotið Carl Nielsen hæfileikaverðlaunin, Gladsaxe tónlistarverðlaunin, Léonie Sonning hæfileikaverðlaunin og Tónlistarverðlaun Grapevine. Hún hefur verið tilnefnd til Carl Prisen, Íslensku tónlistarverðlaunanna, Kraumsverðlaunanna, Royal Philharmonic Society Awards og Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs. Árið 2021 hlaut Bára, ein þriggja tónsmiða/höfunda, þriggja ára starfsstyrk frá danska ríkinu til tónsmíðastarfa sinna. Bára hlaut nýverið heiðursverðlaun Carl Nielsen.

Bára hefur gefið út fjölda platna, nú síðast SILVA (Sono Luminus/ESP disk). Bára leikur títt eigin tónlist en er einnig kontrabassaleikari í Kammersveitinni Elju. Þá hefur hún komið fram sem einleikari með fjölda sveita, m.a. Copenhagen Phil og Sinfóníuhljómsveit Íslands við flutning eigin kontrabassakonserts, Hringlu. Undanfarin ár hefur Bára fetað sig í átt að þverfaglegum uppsetningum þar sem hún hefur að mestu leyti unnið með þýska leikstjóranum og danshöfundinum Ben J. Riepe. 

Bara Gisladottir

© 2024 by CRESCENDO

bottom of page