Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir er leikstjóri Óperunnar hundrað þúsund. Hún hefur unnið á breiðum skala sviðslistanna allt frá útskrift frá Listaháskólanum 2019, sem höfundur, leikstjóri, flytjandi og uppistandari. Hún leikstýrði verkum pólsk-íslenska leikfélagsins PóliS í Tjarnarbíó og Borgarleikhúsinu, sem hlaut Grímuverðlaunin Sprota ársins árið 2021. Hún samdi og flutti sviðsverkið FemCon í Borgarleikhúsinu með uppistandshópnum Fyndnustu Mínar, var dansari í dansverkinu Neind Thing, og ein höfunda leikgerðar og aðstoðarleikstjóri í uppsetningu Leikhópsins Elefant á Íslandsklukku Halldórs Laxness í Kassanum vorið 2023. Salvör er listrænn stjórnandi sviðslistaverkefnisins Krakkaveldis, sem býr til sviðslistaverk og gjörninga sem miða að því að storka valdasambandi fullorðinna og barna með verkum sínum. Verk Krakkaveldis hafa ferðast um allt Ísland, til Norður-Noregs og Færeyja. Hún er einnig meðlimur pönksveitarinnar Stormy Daniels.